Uppskeruhátíð í þriðja sinn

Skolahljomsveit Arbaejar

Reykjavíkurborg starfrækir fjórar skólahljómsveitir sem í eru á fimmta hundrað nemendur. Auk þess að spila í hljómsveitunum sækja meðlimir einkatíma á sitt hljóðfæri. Sveitirnar eru Skólahljómsveit Vesturbæjar og Miðbæjar með höfuðstöðvar við Vesturbæjarskóla, Skólahljómsveit Austurbæjar með höfuðstöðvar í Laugarnesskóla, Skólahljómsveit Grafarvogs með aðsetur í Húsaskóla og loks Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts sem gerir út frá Breiðholtsskóla. Í kjölfar samstarfssamnings Skóla- og frístundaráðs og Fjölskyldu- og húsdýragarðsins um fræðslutengingu skólanna í Reykjavík við garðinn þótti ekki úr vegi að tengja starf skólahljómsveitanna inn samstarfið enda eru sveitirnar órjúfanlegur hluti af skólamenningu borgarinnar. Það er nú gert í þriðja sinn með uppskeruhátíðinni þar sem allir krakkarnir í öllum sveitunum fjórum hittast í garðinum, spila fyrir gesti garðsins, kynnast og skemmta sér í garðinum. Í hverri sveit eru raunar þrjár til fjórar sveitir með börnum á mismunandi aldri þannig að fjöldi þeirra sveita sem leikur þennan dag er verulegur og tónlistin mun óma út í eitt. Að þessu sinni verður Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson sérstakur gestur hátíðarinnar sem á einkar vel við þar sem hann hlaut tónlistaruppeldi sitt í Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts sem kornettleikari á sínum tíma.