Unga Lotta

Unga Lotta 2020

Undanfarin ár hefur allavega ein hæna úr hópi landnámshæna garðsins farið afsíðis til að verpa og komið upp ungum.  Þetta er ekki alltaf sama hænan en til að einfalda hlutina þá er ungamamman iðulega kölluð Unga Lotta til aðgreiningar frá hinum hænunum sem allar heita Lotta.  Unga Lotta þessa árs er nýorpin en hennar og hópsins hennar var vart 15.júlí. 

Unga Lotta kemur með hópinn sinn ár hvert að smádýrahúsinu þar sem dýrahirðar hafa náð að koma þeim í skjól innandyra.  Þar má sjá að Unga Lotta er mikil mamma og gætir hópsins síns af mikilli alúð. 

Annars er það að frétta úr hænsnahópnum að nýlega var ungahópurinn frá því um páskana settur saman við gömlu hænurnar og hanann Nonna Kóng.  Meðan þau aðlagast ganga þau ekki við opið um allan fuglagarð heldur aðeins í stóra útibúrinu við smádýrahúsið.