Tíðindi úr samkomubanni

gangnagerð 2020

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn hefur verið lokaður frá 5.október og ljóst að hann verður lokaður til 22.nóvember hið minnsta en þó er nóg að gera hjá starfsfólki við alls kyns framkvæmdir og umhirðu dýranna. Starfsfólk hefur unnið á tveimur vöktum á virkum dögum og helgarfólk í dýrahirðingu vinnur á þremur vöktum og mætir hver hópur á vakt þriðju hverja helgi.  Ekkert fræðslustarf hefur verið í boði þennan tíma en dýrunum hefur auðvitað verið sinnt eins og venjulega.  

Nokkuð hefur verið um framkvæmdir og þeirra stærst er framkvæmdin sunnan við fjárhúsið þar sem unnið er að gangnagerð.  Með göngunum sem liggja frá göngustíg við fjárhúsið, undir annan göngustíg og inn á beitarstykki verður sauð- og geitfé gert kleift að ganga við opið sama hvernig viðrar.  Framkvæmdir þar ganga vel og starfsfólk er orðið verulega spennt að sjá hvernig fjárstofnar garðsins munu nýta sér nýjungarnar.  Efnið sem þurfti til framkvæmdarinnar var að næstum öllu leyti fengið úr garðinum, efni sem annars hefði þurft að keyra í pytt utan garðsins.  Það efni sem kom þegar grafið var fyrir göngunum var nýtt til að gera ása á beitarstykkinu sem nýtist sem skjól og bætir ásýnd.  Moldin undir torfþökurnar var tekin af hreindýrastykkinu en þar er verið að skipta um jarðveg við hreindýrahúsið þar sem byrjaður er að myndast drullupyttur. Það stendur til að skipta um efni í hestagerðinu og gamla efnið þaðan nýttist því vel í göngin.  Grjótið kemur úr Þjófadölum innan garðsins en Þjófadalir eru nýttir sem beitarstykki fyrir hross garðsins part úr ári. Gangnaveggirnir eru aðkeyptir en þeir eru úr endurunni plasti og sömuleiðis þurfum við að leita utan garðs þegar kemur að því að kaupa hlið og nýjar girðingar.  Það er eitthvað eftir en allt mjakast þetta í rétta átt.  Fleiri myndir má finna á Facebook síðu garðsins.  


Af dýrunum er það að frétta að síðasta mánuðinn hafa þrír fálkar dvalið í garðinum og þegar þetta er skrifað (13.nóv.) eru þar tveir ennþá.  Þeim þriðja var sleppt en hinir tveir eru hressir og verður væntanlega sleppt fljótlega.  Annar var grútarblautur og hinn át yfir sig í Fossvoginum og fær að dvelja hjá okkur þar til hann getur hafið sig til flugs á ný.  
Lyktin í geitastíunni nálgast það að ná hámarki en hafurinn Djarfur hefur í nógu að snúast við að fylgjast með hvaða huðna er tilbúin til mökunar við hann.  Hann nýtir tækifærið þegar það gefst og því má vænta þess að kiðlingar líti dagsins ljós eftir rúma fimm mánuði.  Hrútunum Stapa og Jökli er aftur á móti enn haldið frá ánum en líkt og síður er á íslenskum bæjum verður þeim hleypt til ánna þegar nær dregur jólum.  
Kýrin Rifa bar rétt fyrir samkomubann og kálfurinn hennar hefur fengið nafnið Tómas að lokinni kosningu vina okkar á Instagram síðu garðsins.  Tómas deilir stíu með Hring sem er rúmlega mánuði eldri en Tómas.  
Hestarnir fengu nýjan ferfættan félaga á dögunum þegar rauðblesótti hesturinn Völur bættist í hópinn en fyrir voru heimaríka hryssan Gola (jarpvindótt) og jarpi gestahesturinn Jörundur.  


Líkt og fyrr segir verður garðurinn lokaður eitthvað áfram en starfsfólk hvetur alla að gæta vel að persónulegum sóttvörnum og njóta þess að gera allt hvað má miðað við þær takmarkanir sem eru í gildi.