Tíðindi af dýrunum.

Mjallhvít og Öskubuska

Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn er opinn allan ársins hring þó leiktæki Fjölskyldugarðsins fari í vetrardvala.  Nóg er um að vera í kringum dýrin vetur, sumar, vor og haust og hér að neðan fara nokkur tíðindi af nokkrum þeirra. 

Nýjir íbúar í fjárhúsinu fluttu í garðinn á dögunum eftir ferðalög dýrahirða um vesturland.  Fyrst var farið í ferðalag vestur á Snæfellsnes. Þangað voru sóttir tveir lambhrútar á bæinn Hamra við Grundarfjörð.  Nöfn á félagana voru rædd á bakaleiðinni og niðurstaðan var sú að annar fengi nafnið Stapi og hinn Jökull með skírskotun í náttúruperlurnar Arnarstapa og Snæfellsjökul. 

Seinna í september lögðu dýrahirðar aftur af stað og þá að Háafelli á Hvítársíðu þar sem er stunduð geitfjárrækt.  Þaðan komu með til baka huðnurnar Mjallhvít og Öskubuska sem bættust í hóp geitanna í geitastíunni. 

Jarðgangnagerð er nú meðal þeirra verkefna sem eru í gangi í garðinum en verið er að útbúa göng frá fjárhúsinu á beitarstykkin sunnan við fjárhúsið.  Þegar framkvæmdum lýkur verður geit- og sauðfé boðið að ganga við opið, það er fara út á stykki og njóta útiverunnar ef þau vilja en verður eftir sem áður gefið inni. 

Hreintarfurinn Tindur hefur í nógu að snúast þessa dagana enda er fengitími að byrja hjá hreindýrunum.  Mikil orka hjá honum fer því í að halda þeim simlum hjá sér sem hann hefur áhuga á og þeim fjarri sem hann vill ekkert með hafa í bili. Strax að loknum fengitíma fellir tarfurinn hornin og eftir standa simlurnar hyrndar og fara þá með völdin í hjörðinni.  Ein simla garðsins, Gullbrá, er þó kollótt, það er fær aldrei horn.