Smíði nýja fallturnsins gengur vel

undirstadan

Á Norður Ítalíu, nánar tiltekið á sléttum árinnar Pó er mikið iðnaðarsvæði. Ítalir smíða ekki bara frábærar harmónikkur heldur eru þeir fremstir meðal jafningja í smíði skemmtigarðstækja og er það raunar aðalatvinnuvegurinn í mörgum bæjarfélögum í Pódalnum. Bæjarfélagið Ostiglia er einmitt eitt slíkra og þar vinna menn nú hörðum höndum að smíði nýs fallturns fyrir Fjölskyldugarðinn. Gamli fallturninn Níðhöggur er hins vegar sigldur á haf út til skapara sinna í sama bæ sem munu gera hann upp og selja annað ef að líkum lætur. Hann var einmitt smíðaður af sama fyrirtæki og smíðar nýja turninn, Moser's Rides, fyrir um ellefu árum. Moser's er fjölskyldufyrirtæki, rekið af Alfeo Moser, eiginkonu hans og sonum. Skemmtigarðatæki eru smíðuð eftir ströngum öryggisstöðlum og er nýi turninn þar engin undantekning. Hann mun uppfylla bæði kröfur sem gerðar eru til slíkra tækja í Evrópu og N-Ameríku. Turninn er alls 21.5 meter á hæð en sá gamli var 15 metrar. Færsla sætanna í nýja turninum upp og niður verður um 16 metrar í stað 12 metra á þeim eldri. Þyngdarhröðunin í fallinu er um 1,5 G - eða 1,5 x þyngdarhröðun jarðar. Það sem þessi turn hefur fram yfir yfir þann eldri að auki eru fleiri sæti og hringsnúningur sem er nýjung í þessum tækjum. Þannig má segja að Fjölskyldugarðurinn eignist bæði fallturn og hringekju með turninum. Á sama tíma er verið að undirbúa undirstöðu turnins í garðinum, en hann kemur til með að standa á steyptum palli sem er um 50 fermetrar að stærð. Stálhringurinn á myndinni er einmitt festing turnins við pallinn, tæpir 2 metrar í þvermál og vegur um 1,5 tonn.