Hopp og skopp hjá þyngstu dýrum garðsins

Oft gengur mikið á í fyrstu útiveru sumarsins

Í dag (þriðjudaginn 14.maí) þegar við öll bíðum spennt eftir að Hataraflokkurinn stígi á svið í Tel Aviv og keppi fyrir Íslandshönd í Eurovision voru nautgripir Fjölskyldu- og húdýragarðs spennt yfir því og einu öðru. Eftir hádegi fengu þau að fara út á grænt gras í fyrsta skipti þetta sumarið. Alla daga fara þau dýr sem það þola út á hverjum morgni að viðra sig á meðan útihúsin eru þrifin fyrir opnun. Útiveran lengist töluvert dag frá degi þegar vorar en þegar búið er að bera áburð á grasið og það er búið að spretta nóg er hægt að byrja að leyfa grasbítum að fara og njóta. Fyrstu dagana er aðeins hægt að leyfa þeim að vera á grasinu í stutta stund svo fóðurbreytingar verði ekki of miklar. Útiveran á grasinu lengist jafnt og þétt meðan beitin endist. Dýrahirðar hafa smá saman verið að lengja útivistina fyrir geit- og sauðfé og hesta meðan nautgripir hafa aðeins þurft að bíða. 

Það er allajafna mikið fjör þegar nautgripir fara út í fyrsta sinn að vori. Hopp og skopp um allar jarðir þrátt fyrir að vera stór og mikil dýr, stundum er atgangurinn það mikill að jörð skelfur undan þeim.  

Hægt er að sjá myndband af óvenjulega fjörugri fyrstu útiveru þetta vorið á Facebooksíðu garðsins ( https://www.facebook.com/husdyragardurinn/videos/604703103345004/).