Júnítíðindi

Leikföng á Mímisbrunni

Fréttir af nýjum og eldri leiktækjum og öðru skemmtilegu í Fjölskyldugarðinum. 

Eins og við höfum sagt frá áður þá setti heimsfaraldur Covid 19 strik í reikninginn hvað varðar opnun leiktækja í vor og sumar.  Íhlutir í hringekju og Sleggju voru lengur á leiðinni hingað en til stóð, bæði vegna stopula ferða og lokunar verksmiðja á Ítalíu.  Nýtt rugguskip tafðist einnig en allt er þetta á réttri leið.  Hringekjan er farin að snúast á nýjum stað og vonandi styttist í að Sleggjan fari í hringi og að Elliði fari að rugga. 

Nýr ævintýraheimur hefur orðið til á Mímisbrunni, syðst í Fjölskyldugarðinum en þar hafa verið sett upp fótboltamörk, folf karfa, húllahringir og fleira skemmtilegt sem fólk á öllum aldri getur skemmt sér við. 

Yngsta kynslóðin getur nú skellt sér ein og óstudd í bátsferð en Smábátarnir við Tjörnina eru fyrir upprennandi sjómenn að 40 kg að þyngd en hámarkshæð er 1,35 m. Bátarnir sem eru minni en þeir sem fyrir eru eru fjórir talsins og í einn bát kostar einn skemmtimiða. 

Í júní voru tekin í notkun ný rafmagnsgrill á grillsvæðinu í Fjölskyldugarðinum.  Fjöldi borða er við grillin og því upplagt að koma sér fyrir með gott nesti á skjólgóðu svæðinu.  Við grillsvæðið hefur borðum verið fjölgað og á þeim eru fallegar uglur sem hafa það hlutverk að fæla burtu máva sem sækja í góðgæti gesta.  Starfsfólk garðsins biðlar til gesta að gera sitt í að halda mávunum frá og ganga vel frá eftir sig og alls ekki fóðra þá.  Í húsinu sem áður hýsti sjoppuna hafa verið settir upp sjálfsalar en veitingasala er enn í veitingahúsinu Húsdýragarðsmegin.  Þar fá allir þeir sem koma með eigin kaffibolla frítt kaffi. 

Dýranámskeið og „pop up“ fræðsla.

Dýranámskeið Fjölskyldu- og húsdýragarðsins njóta mikilla vinsælda sem fyrr og öll námskeið sumarsins fylltust fljótt og biðlistar að auki.  Á námskeiðinu vinna þátttakendur sem eru 10 til 12 ára með dýrunum í garðinum undir handleiðslu dýrahirða garðsins. 

Sumarstarfsfólk í fræðslu- og dýradeild hefur yfirumsjón með dagskrárliðnum „pop up fræðsla“.  Þá fræða þau gesti um hvað sem er í mestu uppáhaldi eða er áhugaverðast þann daginn.  Áhugasamir geta hitt þau við selalaugina alla virka daga kl. 13:30. Örlitlar breytingar hafa verið gerðar á dagskrá í kringum dýrin og má sjá hana á www.mu.is

Dýr garðsins á barmi heimsfrægðar ?

Sjónvarpstökulið var fyrirferðarmikið í garðinum í byrjun júní en tökur á Eurogarðinum fóru að miklu leyti fram í garðinum.  Miðað við grínleikarastóðið sem leikur í þáttunum er starfsfólk garðsins mjög spennt fyrir útkomunni. Dýr garðsins koma að einhverju leyti við sögu og það er nú þegar búið að rýma fyrir bikurum í hillum í garðinum fyrir bestan leik í aukahlutverki fyrir þau. 

Fréttir af dýrunum. 

Landselsurtan Særún beið heldur lengur en vanalega með kæpingu þetta árið en kópur hennar kom í heiminn árla morguns á sjálfri Jónsmessunni þann 24.júni.  Kópnum vegnar vel og er duglegur að drekka orkumikla mjólk Særúnar og fylgir móður sinni vel eftir á sundi.  

Af villtum dýrum í hremmingum er það helst að frétta að hringanórinn Kári sem dvaldi í nokkurn tíma í garðinum er kominn á heimaslóðir sínar við Grænlandsstrendur.  Honum var sleppt í Ísafjarðardjúpi í byrjun maí og settur á hann gervihnattasendir svo unnt væri að fylgjast með ferðalagi hans.  Vonir voru bundnar við að hægt yrði að fylgjast með honum í þrjár til fjórar vikur og það stóð.  Upplýsingar um ferðir hans hættu að berast í byrjun júní og þá var hann kominn á heimaslóðir sínar við ísröndina.  Starfsfólk garðsins vonar auðvitað að honum farnist vel í framtíðinni.  Í tengslum við verkefnið villt dýr í hremmingum kom grútarblautur fálki einnig í heimsókn í garðinn.  Fálkinn sem er stór kvenfugl fékk gott bað og grútnum þannig náð af honum og þurfti ekki frekari aðhlynningar við og var því sleppt í Bláfjöllum þann 11.júní. 

Hreindýrin í garðinum hafa eignast nýja vinkonu, sú heitir Katarzyna Anna Kakol en er kölluð Kasia.  Kasia kláraði BSc nám í líffræði við Háskóla Íslands árið 2019 og stundar núna mastersnám í háskólanum í Linköping í Svíþjóð. Í Svíþjóð er hún í námi sem kallast atferlis- og dýrafræði.  Þar er mikil áhersla lögð á vellíðan dýra og þar á meðal dýra í dýragörðum. Verkefni sem hún vinnur hér í garðinum er í tengslum við nám hennar og snýst um að skoða atferli hreindýranna og hvernig hægt er að auka vellíðan þeirra. Kasia ætlar að reyna að gera það með því að auðga umhverfi þeirra en dýrahirðar hafa verið að vinna að því víða í garðinum og ætla að halda áfram í þeirri vinnu.  Því fellur verkefni Kasiu vel að þeim verkum. 

Í júní var hafist handa við að stækka útihólf svínanna við svínastíuna.  Þangað fara þau dag hvern meðan þrifið er en dýrahirðar hafa einnig hleypt geltinum á drullusvæðið í miðjum garðinum meðan þrifið er á morgnanna nokkra daga í viku.  Gyltan og grísirnir njóta þess svo að fara á drullusvæðið á opnunartíma nokkrum sinnum í viku. 

Í rýminu sem í daglegu tali gengur undir nafninu Skriðdýrahúsið, þó þar búi að auki við skriðdýr froskdýr og alls kyns pöddur, fjölgaði íbúum töluvert í júní.  Eldmagakörturnar hafa fjölgað sér og má sjá þó nokkrar halakörtur synda um í búrinu þeirra. 

Fréttir af gestafjölda

Gestafjöldi garðsins í júní var akkúrat í meðallagi miðað við tölur síðustu tíu ár en það voru 31.677 gestir sem sóttu garðinn heim.  Eitthvað voru gestir okkar þyrstir og svangir því veitingasala var með besta móti og minjagripasala sömuleiðis. 

Töluvert var um heimsóknir skólahópa á síðustu dögum skólaársins en fyrstu dagana í júní tók fræðsludeild garðsins á móti 410 nemendum í skipulagðar heimsóknir.  Skólaárið 2019 til 2020 var ekki fjölmennasta árið hvað varðar leik-og grunnskólanemendur í skipulagðar heimsóknir en ástæðan ætti að vera öllum kunn.  Rúmur mánuður datt út vegna Covid-19 en garðinum var lokað í tæpa tvo mánuði í vetur.

Miðvikudagskvöldopnanir eru að festa sig í sessi en með þeim er verið að koma til móts við eftirspurn gesta okkar.  Fáir virðast koma inn eftir kl. 18 en garðinum er lokað þá hina 6 dagana í viku.  Gestir eru þó klárlega ánægðir með að þurfa ekki að drífa sig heim fyrr en kl. 20 þennan eina dag í viku.