Jólakötturinn mættur

Jólakötturinn er mættur - hann er ekki eins sætur og þessi

Jólakötturinn er mættur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn.  Kofa hans hefur nú verið komið fyrir við Kaffihúsið og þannig að gestum okkar stemdur ekki ógn af honum.  Einhver læti fylgja þó óargadýrinu og gott getur verið að undirbúa unga gesti fyrir komuna með sögum af kisa. 

Garðurinn er opinn frá kl. 10 til 17 og ókeypis er inn fyrir leik- og grunnskólanemendur í Reykjavík á skólatíma ásamt kennurum sínum eins og í öðrum mánuðum.  Ekki þarf að panta sérstaklega í heimsókn til Jólakattarins en á síðasta ári tók hann á móti ríflega 2000 nemendum á aðventunni.  Önnur dýr verða í jólaskapi og hreindýr fá jólamosann sinn daglega kl. 10:30, selirnir fá að éta kl. 11:00 og refir kl. 11:30. 

Hægt er að panta hressingu fyrir leik- og grunnskólahópa hjá Gumma í Kaffihúsinu sem er í óðaönn að baka uppáhaldssmákökur Stúfs sem í boði verður að skola niður með heitu kakói.  Gummi tekur á móti pöntunum fyrir hópa í síma 411-5900 eftir kl. 10 virka daga.  Kostnaður er 400 krónur á mann.  Nauðsynlegt er að panta fyrirfram.