Hvað vorum við að brasa í samkomubanni ?

geitur

Lífið í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var eðlilegt og undarlegt í senn meðan á samkomubanni vegna Covid 19 stóð en garðurinn var lokaður frá 24.mars til og með 27.maí.  Dýrunum var sinnt á sama hátt og alla aðra daga og nánast allir starfsmenn garðsins voru á tímabili dýrahirðar þar sem unnið var á fjórum vöktum.  Það var gert til að tryggja að dýrunum yrði pottþétt sinnt ef einhverjir úr starfsmannahópnum hefðu lent í sóttkví.  Með þessu móti fengu nánast allir starfsmenn innsýn í starf dýrahirða og starfsfólk er sammála um að starfsmannahópurinn er þéttari fyrir vikið og við kynntumst öll á nýjan hátt.  Starfsfólk sem vanalega vinnur ekki saman að verkefnum sameinaðist yfir morgun- og kvöldmjöltum, skítmokstri og þrifum milli þess sem það gaf dýrunum að éta, sótti fóður út í bæ og tók á móti nýjum einstaklingum.

Geit- og sauðburður átti sér stað meðan garðurinn var lokaður en geitburður var í byrjun apríl og sauðburður um miðjan maí.  Í geitastíunni komu 10 kiðlingar undan 6 huðnum, 5 hafrar og 5 huðnur.  Sauðburður hófst 7.maí og lauk 20.maí.  Alls báru 6 ær og frá þeim komu 12 lömb, 4 gimbrar og 8 hrútar.  Litafjölbreytnin er töluverð í báðum hjörðum og allt gengur eins og í sögu. 

Starfsmenn verkstæðisins í Fjölskyldugarðinum höfðu einnig nóg að gera en þar var unnið á vöktum til að tryggja að einhver væri eftir til að sinna verkunum ef einhverjir færu í sóttkví.  Framkvæmdir í Fjölskyldugarði hafa verið fyrirferðamiklar í vor og ganga vel ef frá eru taldar tafir á aðföngum í leiktæki garðsins.  Íhlutir í leiktækin koma að mestu leyti frá Ítalíu og þaðan þurfa líka að koma sérfræðingar til að aðstoða við uppsetningu.  Ástandið á Ítalíu hefur ekki verið gott eins og fréttaþyrstir vita og útgöngubann þar og ferðabann þaðan hefur verið í gildi og því eru einhverjar tafir á uppsetningu nokkurra tækja. 

Viðtöl við umsækjendur um sumarstörf fóru á einhverju leyti fram í gegnum fjarfundarbúnað.  Fjöldi umsækjenda var líkt og fyrri ár mjög mikill en ráðið hefur verið í öll störf og við erum spennt fyrir samstarfi við nýtt og eldra sumarstarfsfólk. 

Nýtt afgreiðslukerfi hefur verið sett upp á sölustöðum innan garðsins og fór nokkur vinna í að færa árskortshafa milli kerfa og starfsfólk er nú óðum að læra á nýtt kerfi.  Árskortshafar sem eru litlu fleiri en allir íbúar Akraness fá þann tíma sem lokað var í garðinum bætt við gildistíma árskorta sinna. 

Sjónvarpsþáttagerðarfólk hefur dvalið í garðinum undanfarið við tökur á þáttunum um Eurogarðinn og verða eitthvað áfram.  Það hefur því verið nóg um að vera og mikið sprellað og eflaust munu gestir í byrjun sumars eitthvað verða varir við þetta ágæta fólk og gestir eru beðnir að sýna þeim tillitssemi svo allt gangi vel.