Fréttir af Kára hringanóra.

kári

Nú er hringanórinn Kári búinn að vera á ferðinni í tæpan mánuð en honum var sleppt í Ísafjarðardjúpi þann 2. maí. Eftir að hafa synt nokkuð rakleiðis til norðurs frá Vestfjarðarkjálkanum að ísröndinni á Grænlandssundi snéri hann ögn til suðurs aftur og tók ansi marga hringi. Á þessum kafla einkenndist ferð hans af beinum köflum og síðan hringsóli á nokkurra kílómetra svæði í einu. Þann 12. maí tók hann hins vegar stefnuna aftur til vesturs og norður og kom að strönd Grænlands þann 18 maí. Þar sem kortið sem ferillinn hans er á er nokkuð gróft virtist sem hann hefði skriðið á land og ýmsir fóru að hafa áhyggjur af heilsufari hans og þá sérstaklega með tilliti til ísbjarna. En Kári lenti augljóslega ekki í neinum ísbjarnarblús og hélt afram norður eftir strönd Grænlands. Eftir að hafa tekið nokkra hringi hefur hann nú aftur tekið stefnuna Norður og á einungis um 180 km eftir að Scoresbysundi á Grænlandi og stutt er í að hann komist yfir 69. breiddargráðu. Að frádregnum smærri lykkjum er sundferð Kára nú orðin um 1000 kílómetra löng. Á þessari ferð hefur hann aldrei farið svo lengi upp á land að mælitækin á honum hafi numið slíkt. Hann er nú í köldum sjó (-1°C) og séu gervihnattarmyndir skoðaðar sést að hafísinn umhverfis hann er sífellt að þéttast.  Sjá nánar á www.mu.is/kari.