Elliði kominn heim

Elliði hífður úr gámnum

Rugguskipið Elliði sem leysir rugguskipið Krakkafoss af hólmi var tekið úr flutningagámnum þann 15.júní en skipið vegur 7 tonn. Gerð Elliða og flutningurinn tók lengri tíma en til stóð vegna Covid-19. Hann var smíðaður á Ítalíu og verksmiðjunni þar var lokað um þó nokkurn tíma í vetur og fram á vor. En þegar Ítalirnir mættu á ný til vinnu unnu þeir hratt og vel og Elliði er kominn heim. Ekki verður þó hægt að fara í ferðir með Elliða alveg strax því sérfræðingar að utan koma til landsins til að klára að setja hann upp og vonandi gengur það hratt og vel. Sleggjan sem er í nágrenni við Elliða í austurhluta Fjölskyldugarðsins bíður líka sérfræðings að utan svo hægt sé að gera hann kláran fyrir adrenalínþyrsta gesti. 
Starfsfólk garðsins er þakklátt þeirri biðlund sem gestir okkar sýna ástandinu en við það er því miður ekki ráðið.