Álftin af Urriðakotsvatni

Álftin að átta sig í nýjum aðstæðum

Álft sem bjargað var við Urriðakotsvatn er komin hingað í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Álftin hafði fest áldós á gogginum og var orðin máttfarin. Við komuna í garðinn var álftin vigtuð og reyndist vera í ágætum holdum þrátt fyrir að hafa átt í erfiðleikum með að éta síðustu vikur. Einnig var borið sótthreinsandi krem í sár sem myndast höfðu í gogginum. Farið var svo með álftina í búrið sem oft er kallað Styrmishöll þar sem hún fær að éta og átta sig næstu daga. Stax og henni var boðið brauð að éta tók hún vel í það og einnig hefur hún aðgang að fóðurkögglum. Nú er bara að bíða og sjá hvernig henni fer fram. 
Starfsfólk FHG biður gesti sem koma í heimsókn að sýna álftinni sérstaka tillitsemi.