Þriðjudagurinn 2. september

Skrítla gotin

Gyltan Skrítla gaut miðvikudagskvöldið 27.ágúst sl. Íbúafjöldi svínastíunnar fór því úr 2 svínum í 9 á örskotsstundu en auk Skrítlu býr faðirinn, gölturinn Darri í garðinum.  Grísirnir sjö eru litfagrir og sprækir en þeim er hleypt reglulega til gyltunnar til að fá sér að drekka milli þess sem þeir fá sér lúr í mjúku heyi undir hitaperu.  Fyrstu dagana þykir vissara að hafa vit fyrir þeim og gyltunni og eru þeir því hafðir bakvið skilrúm í svínastíunni og þannig komið í veg fyrir að gyltan leggist óvart á grísina sína.  Meðgöngutími gylta er 3 mánuðir, 3 vikur og 3 dagar eða 114-116 dagar.  Frekari fjölgunar er von í fjósinu þar sem svínastían er til húsa því kýrin Rut á tal (á að bera) á laugardaginn 30. ágúst.  Það verður því seint sagt að lognmolla sé í Húsdýragarðinum.

Fylgist með okkur á Facebook síðu garðsins þar sem Sella dýrahirðir setur inn myndir af dýrunum og lífinu í garðinum á hverjum degi.  https://www.facebook.com/husdyragardurinn 

 Skritla_gotin.jpg

Vetrargír.

Nú hefur verið skipt um gír í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og leiktækin óðum að komast í vetrardvala.  Þau eru nú lokuð á virkum dögum nema þau tæki sem ekki þarf mönnun við (Naglfar, vaðleikjasvæðið og kastalarnir).  Næstu tvær helgar (31. og 31. ágúst og 6. og 7. september) verða þó öll leiktæki opin.  Opnunartíminn hefur einnig verið styttur og nú er opið alla daga frá kl. 10 til 17 og opið frá 10 til 16:30 í Kaffihúsi garðsins. 

Húsdýragarðshlutinn er þó enn keyrður af sama afli og á sumrin og nú tekur við annasamur tími þar. Grunnskólar eru að hefjast að nýju og vetrarstarf leikskóla fer af stað og því má búast við fullum garði af fróðleikþyrstum nemendum og öðrum gestum sem vilja kynnast dýrunum okkar betur.  Þessu tengt má nefna að fræðsludeild garðsins sló met á síðasta skólaári.  Þá komu rétt tæplega 10 þúsund nemendur á öllum aldri í fróðleiksleit í garðinn og sóttu þar skipulagt fræðslustarf.  

Sumarkiðlingur

Huðnan Fjóla bar myndarlegum kiðlingi síðastliðinn laugardag (9. ágúst).  Kiðlingurinn sem er huðna hefur fengið nafnið Freyja og er gráflekkótt eins og móðirin.  Eitthvað hefur gengið hæglega hjá Fjólu að festa fang sl. vetur því aðrar huðnur garðsins báru í apríl. Frjálsar ástir ríkja í geitastíunni ólíkt því sem gerist handan gangsins hjá sauðfénu.  Hrútnum er nefnilega haldið frá ánum frá því síðla haust og fram í desember þegar að því kemur að hann skuli sinna þeim.  Hafurinn fær aftur á móti að ganga með huðnunum allt árið sem skýrir það að þær eru yfirleitt fyrri til að bera en ærnar.  Meðgöngutími áa og huðna er svipaður eða rúmlega 5 mánuðir.  

Fjola_og_Freyja.jpg

Leik- og grunnskólar skólaárið 2014 til 2015

Fyrstur kemur fyrstur fær! 
 
Í fréttunum hér fyrir neðan má sjá þau námskeið sem við bjóðum upp á á komandi skólaári fyrir leik- og grunnskólanemendur. 
 
Námsframboð í FHG er ekki ótakmarkað og því má búast við að færri komist að en vilja á sum námskeið. Eins og gefur að skilja þarfnast námskeiðin mismunandi aðstöðu. Tíðni námskeiða og fjöldi þátttakenda takmarkast m.a. af aðstöðu hjá dýrunum, af fjölda dýra og hversu oft raunhæft er að sinna dýrunum og handfjatla þau. 
Starfsfólk fræðsludeildar FHG tekur á móti pöntunum og sýnir reynsla undanfarinna ára að öruggast er að panta tímanlega. 
Ef kennari sér fram á að geta ekki nýtt sér námskeið vegna fjölda nemenda, aðgengis o.s.frv. hvetjum við viðkomandi til þess að hafa samband, ræða málin og við reynum að finna lausn.
 
Sláið á þráðinn í síma 411-5900 eða sendið tölvupóst á This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.  
 

Um helgina

Opið frá klukkan 10-17 og Kaffihúsið er opið frá klukkan 10 til 16:30.  

 

Taekjahringur

Skemmtimiðar

Greiða þarf 1-2 skemmtimiða í 8 af leiktækjum garðsins.

Skemmtimiðar 
1 miði 270 kr
10 miðar 2.300 kr
20 miðar 4.300 kr
Dagpassi* 2.000 kr

* Aðgangseyrir ekki innifalinn

Aðgangseyrir

Börn 0-4 ára - frítt
Börn 5-12 ára - 550 kr
13 ára og eldri - 750 kr
Öryrkjar - frítt
Ellilífeyrisþegar - frítt
 
Einstaklingsárskort - 9.000 kr
Fjölskylduárskort - 17.500 kr
 

Afgreiðslutími

Opið alla daga ársins.

Vetur:10-17 (18.08 til 30.05)

Sumar:10-18 (31.05 til 17.08) 

Kaffihúsinu er lokað hálftíma fyrir lokun garðsins.